Tónlist frægra kvenna

Akureyri

20. ágúst 2015

20:30

Norðurland

Tónlist kvenna sem hafa orðið frægar fyrir lagasmíðar og flutning, þar má nefna Joni Mitchell, Carole King, Tracy Chapman, Christina McVie og Joan Baez, ásamt efni frá norðlenskum konum í KÍTÓN (félagi kvenna í tónlist) verður flutt á tónleikum í Hlöðunni, Litla Garði, 20. ágúst.

Konurnar úr félaginu sem koma fram eru Lára Sóley Jóhannsdóttir bæði syngur og spilar á fiðlu, meðal annars í Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og er útnefndur bæjarlistamaður Akureyrar, Helga Kvam píanóleikari, Kristjana Arngrímsdóttir söngkona og Þórhildur Örvarsdóttir söngkona. Einnig koma fram Ásdís Arnardóttir, sem leikur á selló og kontrabassa, og Ásta Soffía Þorgeirsdóttir, sem spilar á harmonikku og stundar háskólanám í þeirri grein í Noregi.

Tónleikarnir eru haldnir til að minnast 100 ára kosningaafmælis kvenna, en einnig til að vekja athygli á KÍTÓN fyrir norðan.

Fyrir utan tónleika kvöldsins í Gömlu hlöðunni hafa þær norðlensku KÍTÓN-konur skipulagt tónleika á Græna hattinum í september og þá þriðju og síðustu í röðinni í Akureyrarkirkju í október. Þá verða gestir með, nokkrar úr KÍTÓN í Reykjavík, kórar og fleiri.