Samsýning 18 safna í Hofi

Eyjafjörður

21. maí 2015

Norðurland

Safnaklasi Eyjafjarðar hefur opnað samsýningu 18 safna og sýninga á Eyjafjarðarsvæðinu í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Söfnin sýna gripi úr sínum fórum sem tengjast konum á einn eða annan hátt en þannig tengja söfnin í Eyjafirði við 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna í ár. Hvað skyldi Síldarminjasafnið á Siglufirði eða Iðnaðarsafnið á Akureyri sýna sem tengist konum? Eða þá Davíðshús og Flugsafn Íslands? Á sýningunni eru margir forvitnilegir hlutir dregnir fram og bera þeir vitni um fjölbreytni safnanna við Eyjafjörð.

Safnaklasi Eyjafjarðar samanstendur af 20 söfnum og sýningum. Söfnin eru með fjölbreyttar sýningar enda eru aðilar safnaklasans fjölbreytt lista-, sögu- og náttúrugripasöfn.

–        Siglufjörður: Síldarminjasafn Íslands og Þjóðlagasetrið á Siglufirði

–        Ólafsfjörður: Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar

–        Dalvík og Svarfaðardalur: Byggðasafnið Hvoll á Dalvík og Friðland fuglanna Svarfaðardal

–        Hrísey: Holt – Hús Öldu Halldórsdóttur í Hrísey og Hús Hákarla Jörundar

–        Grýtubakkahreppur: Gamli bærinn Laufás og Útgerðarminjasafnið á Grenivík

–        Akureyri: Amtsbókasafnið á Akureyri, Davíðshús, Flugsafn Íslands, Iðnaðarsafnið á Akureyri, Leikfangasýning í Friðbjarnarhúsi, Listasafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Mótorhjólasafn Íslands, Nonnahús og Sigurhæðir.

–        Eyjafjarðarsveit: Smámunasafn Sverris Hermannssonar Sólgarði

 

Sýningin stendur í allt sumar og er opin á opnunartíma Menningarhússins Hofs á Akureyri.