Ingibjörg, Guðrún, Katrín, Kristín og Rannveig

Reykjavík

20. júní 2015

14

Höfuðborgarsvæðið

Söguganga um fyrstu konurnar sem sátu á Alþingi

Fyrstu fimm konurnar sem kjörnar voru á Alþingi Íslendinga eru viðfangsefni sögugöngu um miðborg Reykjavíkur. Stiklað verður á sögu þessara kvenna og  kvennabaráttunnar á fyrri hluta 20. aldar ásamt því að segja frá helstu baráttumálum þeirra á þingi. Konurnar sem fjallað verður um eru þær Ingibjörg H. Bjarnason, Guðrún Lárusdóttir, Katrín Thoroddsen, Kristín L. Sigurðardóttir og Rannveig Þorsteinsdóttir.

Upphafspunktur göngunnar verður Alþingi við Austurvöll og henni lýkur í Hólavallagarði, þar sem fjórar af þessum fimm konum hvíla. Á leiðinni verður komið við á ýmsum stöðum þar sem þær ýmist bjuggu eða störfuðu. Áætlað er að gangan taki um 1,5 til 2 klst.

Gangan er á dagskrá tvisvar í sumar; laugardaginn 20. júní kl. 14:00, en þann dag verður einnig sýning í Alþingishúsinu tileinkuð kosningarétti kvenna, og mánudagskvöldið 6. júlí kl. 20.00.

Verkefnið er styrkt af Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og er þátttaka í göngunni ókeypis í þessi tvö skipti. Hópar geta pantað leiðsögn á öðrum tímum, gegn vægu gjaldi.

Sögukonur í göngunni eru þær Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur og Margrét Sveinbjörnsdóttir menningarmiðlari.