HÚN! / SHE!

Kópavogur

15. mars 2015

16:00

Höfuðborgarsvæðið

Einn hópur, eitt safn; látum leitina hefjast.
Eitthvað á þessa vegu var upplagið fyrir HÚN! / SHE! tónleika Nordic Affect þann 15.mars í Salnum í Kópavogi sem sendir verða út víðs vegar um heim af Sambandi Evrópskra Útvarpsstöðva.

Þegar kom að vali efnisskrár ákvað hópurinn að fara í leynilögregluleiðangur um British Library í London. Safnið er sannkölluð gullkista þegar kemur að tónlist og úrvalið í raun svo magnað að til að týnast ekki ákvað listrænn stjórnandi hópsins, Halla Steinunn Stefánsdóttir að þrengja leitina.
Valið var einfalt; í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því að konur á Íslandi hlutu kosningarétt munu öll verk tónleikanna varpa ljósi á hina fjölbreyttu aðkomu kvenna að tónlist á barokktímanum. Við sögu koma því m.a. tónskáld, útgefendur, hljóðfæraleikarar og verndarar lista úr röðum kvenna.
 
Kammerhópurinn Nordic Affect var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2013 og valinn Flytjandi ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum í fyrra. Einnig skrifaði hópurinn á dögunum undir samning við bandaríska útgáfufyrirtækið Sono Luminus. 
Flytjendur á tónleikunum eru þau Halla Steinunn Stefánsdóttir og Tuomo Suni fiðluleikarar, Georgia Browne þverflautuleikari, Guðrún Hrund Harðardóttir víóluleikari, Hanna Loftsdóttir sellóleikari og Guðrún Óskarsdóttir semballeikari. 
 
Aðgangur er ókeypis.
 
Verkefnið er styrkt af Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóði mennta- og menningarmálaráðuneytisins.