“Hjáverkin”

Reykjavík

17. maí 2015

14:00

Höfuðborgarsvæðið

Hjáverkin

Atvinnusköpun kvenna í heimahúsum 1900-1970.

 

Á íslenska safnadaginn, verður opnuð ný sýning í Árbæjarsafni sem ber heitið Hjáverkin – atvinnusköpun kvenna í heimahúsum 1900-1970.

 

Ábyrgð kvenna á eigin afkomu og afkomu fjölskyldunnar hefur almennt ekki verið mikils metin í samfélagslegri umræðu, bókmenntum og sögubókum. Langt fram eftir 20. öld voru karlar fyrirvinnur en konur voru heima. Framleiðsla kvenna hefur í gegnum tíðina verið vandlega falin og vantalin í hagrænum skilningi.

 

Sýningin Hjáverkin fjallar um þessa földu veröld kvenna, hvernig konum tókst að afla tekna í hjáverkum samhliða skyldustörfum til að sjá sér og sínum farborða. Auk matseldar, þrifa og barnauppeldis framleiddu þær fatnað á alla fjölskylduna, ræktuðu kartöflur og kál, gerðu slátur, suðu sultur og saft. Þær sinntu sjúkum og öldruðum, bjuggu til gjafir í stórum stíl og tóku að sér ýmis viðvik fyrir ættingja og vini. Konur tóku heimilistækin í sína þjónustu og gerðu að atvinnutækjum. Prjónavélar, saumavélar og þvottavélar nýttust til atvinnusköpunar. Konur seldu máltíðir, þær leigðu út herbergi, þvoðu, straujuðu, saumuðu, prjónuðu og gerðu við fatnað. Þær tóku einnig að sér kennslu í ótal greinum, hannyrðum, tungumálum, tónlist og myndlist. Konur í öllum lögum samfélagsins gátu fundið sér sína hjáleið. Til þess nýttu þær hugvit sitt, útsjónarsemi, þekkingu og færni.

 

Sýning Hjáverkin er óður til kvenna. Óður til framtaksemi þeirra, hugmyndaauðgi og sjálfsbjargarviðleitni. Konur hafa ætíð axlað ábyrgð en möguleikar þeirra hafa oft á tíðum verið afar takmarkaðir. Hinn ytri rammi samfélagsins hefur þrengt að þeim á ýmsan hátt. Konur hafa gegnum tíðina leitað leiða innan rammans, margar hafa víkkað rammann, klippt á hann göt eða stigið út fyrir hann. Kvennabarátta snýst um það öðrum þræði að víkka manngerða ramma, rífa niður múra, brjóta glerþök og byggja upp betra samfélag. Barátta kvenna fyrir jöfnum rétti, jafnri stöðu hefur lengi verið og er enn stöðug barátta, skref fyrir skref.

 

Sýningin Hjáverkin byggir á safnkosti Borgarsögusafns Reykjavíkur og rannsóknum safnsins á vinnu kvenna.  Sýningin er hluti af framlagi Borgarsögusafns Reykjavíkur til að minnast 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.