“Heill þér mæta merka kona”

04. júní 2015

none

Sýning Héraðsskjalasafnsins á Akureyri í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi

Opin 4. – 30. júní 2015 í Brekkugötu 17, húsi Héraðsskjalasafns og Amtsbókasafns.

Ávarpið í heiti sýningarinnar gæti átt við mjög margar konur, en það er sótt í ljóð sem Elísabet Geirmundsdóttir listakona orti til Elísabetar Eiríksdóttur, kennara og bæjarfulltrúa, sextugrar.

Sýningin byggist á skjölum sem varðveitt eru í Héraðsskjalasafninu á Akureyri og er þar um að ræða frumskjöl sem varða kosningar, kvennabaráttu, kvenfélög, kvennaklúbba og einstakar konur, þ.e.a.s. kvennaskjöl í víðasta skilningi þess orðs.

Minnst verður sérstaklega Vilhelmínu Lever sem fyrst kvenna á Íslandi kaus til bæjarstjórnar árið 1863. Þess má geta að önnur kona, Kristbjörg Þórðardóttir, var þá einnig á kjörskrá en nýtti sér ekki „kosningaréttinn“  sem reyndar var ekki óyggjandi.

Einnig verður minnst þeirra þriggja kvenna sem fyrstar tóku sæti í bæjarstjórn Akureyrar. Það voru þær Kristín Eggertsdóttir kjörin 1911 og sat í 3 ár, Halldóra Bjarnadóttir árið 1921 og sat í 1 ár og  áðurnefnd Elísabet Eiríksdóttir, sem tók þar sæti 1927 og sat alls í 19 ár.

Á sýningunni eru sendibréf, dagbækur, fundargerðabækur, fálkaorðuskjal, heiðursborgaraskjal, meðmælendalistar til framboðs, ræða þingmanns og margt fleira sem of langt væri upp að telja.

Þarna má einnig sjá lista yfir konur í sveitarstjórnum við Eyjafjörð, lista yfir þingkonur Norðurlandskjördæmis eystra og Norðausturkjördæmis auk yfirlits í tímaröð yfir áfanga í sögu kvenna og brautryðjenda við Eyjafjörð.

Sýningin er opin alla virka daga í júní  kl. 10:00 – 19:00 í Brekkugötu 17,  húsi Amtsbókasafns og Héraðsskjalasafns.  Aðgangur er ókeypis og allri velkomnir.