“Gleym þeim ei”

Borgarfjörður

23. apríl 2015

Vesturland

Sýning sem er framlag Safnahúss Borgarfjarðar til hátíðahaldanna 2015.
Þar verður sagt frá lífi 15 valinna kvenna sem eru að gleymast en eru jafnframt vel þess verðugar að vekja athygli á. Þær eru merkar hver á sinn hátt og tengjast allar starfssvæði Safnahúss, frá Haffjarðará og að Hvalfirði. Markmiðið er að draga nöfn þeirra fram úr djúpi gleymskunnar, láta líf þeirra segja söguna.  Allar voru þessar konur á lífi árið 1915 þegar konur fá kosningarétt.
Hönnuður sýningarinnar er Heiður Hörn Hjartardóttir.
     Verkefnið er unnið í víðtæku samstarfi, með fjölskyldum kvennanna og öðrum tengiliðum sem setja saman fróðleik um konurnar sem unninn er texti upp úr á sýninguna sjálfa.  Með leyfi höfunda fara gögnin svo í heild á Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar til varðveislu til framtíðar.
 
Verkefnið hefur verið í undirbúningi síðan snemma hausts 2014 og sýningin mun standa í um hálft ár eða fram til októberloka.
 
Konurnar sem fjallað verður um eru þessar (með fyrirvara um breytingar):
 

1.       Guðfríður Jóhannesdóttir (1884-1980) ljósmóðir, Litlu Brekku, Borgarhreppi.

2.       Helga Ingibjörg Halldórsdóttir (1895-1985), Kjalvararstöðum, Guðnabakka, Hömrum.

3.       Helga Georgs Pétursdóttir (1884-1971) Draghálsi og Grafardal.

4.       Ingibjörg Friðgeirsdóttir (1906-1998), Hofsstöðum, Álftaneshreppi.

5.       Ingigerður Kristjánsdóttir (1877-1969), á Karlsbrekku í Þverárhlíð og víðar.

6.       Ingveldur Hrómundsdóttir (1862-1954), Haukatungu (Austurb.), Kolbeinsstaðahreppi.

7.       Oddný Jónsdóttir (1859-1957) Borgarnesi.

8.       Pálína Ólafía Pétursdóttir (1876-1964)  Grund, Skorradal.

9.       Ragnheiður Torfadóttir (1873-1953), Hvanneyri, Ytri- Skeljabr. og Arnarholti.

10.    Ragnhildur Benjamínsdóttir (1883-1958), Kalmanstungu.

11.   Rannveig Oddsdóttir (1890-1986), Steinum, Stafholtstungum.

12.  Steinunn Stefánsdóttir (1855-1942), Fíflholtum, Hraunhreppi.

13.   Theodóra Kristín Sveinsdóttir (1876-1949, Reykholti, Hvítárvöllum, Ferstiklu.

14.   Þórunn Ríkharðsdóttir  (1862-1958), Höfn í Leirársveit.

15.   Þórunn Þórðardóttir (1855-1934), Borgarnesi.

 
Á opnunardaginn verða ennfremur tónleikar sem eru afrakstur samstarfs Tónlistarskóla Borgarfjarðar og hluti þróunarverkefnis sem þessar tvær stofnanir standa saman að um listsköpun ungs fólks.  Í Safnahúsi hefur verið tekið saman ljóðasafn fjögurra kvenna sem allar eru ættaðar frá Ásbjarnarstöðum í Stafholtstungum.  Nemendur skólans munu velja sér texta og vinna með hann undir handleiðslu kennara á vorönn. Við opnun sýningarinnar Gleym þeim ei á sumardaginn fyrsta munu þau svo flytja verkin, það verður aðaldagskrárliður opnunarinnar.