“Fósturlandsins Freyja”

05. júlí 2015

13:00

none

Þriðji þáttur af níu um kvennabaráttuna í söngvum á RÚV 1.

BB
Briet Bjarnhéðinsdóttir (lengst t.h.) á fundi Alþjóðsamtaka kosningaréttarfélaga í Búdapest 1913.

Fjallað er um kvenréttindabaráttuna á Íslandi frá 19. öld til 1915. Margir söngvar hafa verið hljóðritaðir sérstaklega fyrir þennan þátt. Það kemur kannski einhverjum á óvart, en elsti íslenski kvenréttindasöngurinn er „Fósturlandsins Freyja“ sem Matthías Jochumsson orti árið 1875. Matthías læddi kvenréttindaboðskap inn í eitt erindi ljóðsins, en fáir vita af því nú þar sem sjaldan er sungið meira en fyrsta erindið. Og menn vita ekki heldur að upphaflega var þessi söngur sunginn við annað lag sem Jónas Helgason hafði samið sérstaklega við ljóðið. Reyndar voru furðu margir íslenskir kvenréttindasöngvar samdir á 19. öld og upp úr aldamótunum 1900, en sumir þeirra hafa glatast. Við höfum þó sönginn „Kvennaslag“ sem Sigfús Einarsson samdi við ljóð Guðmundar Guðmundssonar árið 1911 og var tileinkaður Kvenréttindafélagi Íslands. Auk Guðmundar ortu Matthías Jochumsson, Einar Benediktsson og Þorsteinn Erlingsson kvenréttindaljóð, og þegar íslenskar konur fengu kosningarétt 1915 sungu þær nýtt ljóð eftir Jón Trausta: „Vér fögnum þér, hækkandi frelsisins öld.“
Umsjón: Una Margrét Jónsdóttir.