“Sjókonur”

Reykjavík

05. júní 2015

17:00

Höfuðborgarsvæðið

Sjókonur
Íslenskar konur til sjós í fortíð og nútíð

Í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi opnar sýning á Sjóminjasafninu um íslenskar konur sem sóttu sjóinn, í fortíð og nútíð.

Sýningin er samstarfsverkefni Borgarsögusafns og Dr. Margaret E. Willson mannfræðings. Undanfarin ár hefur hún safnað heimildum um sjósókn íslenskra kvenna, frá upphafi byggðar til vorra daga. Niðurstöður hennar kollvarpa þeim hugmyndum sem uppi eru um sjósókn kvenna sem var og er mun almennari en áður var talið. Leitt er líkur að því að konur hafi í raun sótt sjóinn af kappi síðan við landnám. Á 17. og 18. öld töldu konur um þriðjung sjómanna á Vestfjörðum og á 20. öldinni skipuðu konur allt að 10% íslenska flotans. Sýningin byggir á niðurstöðum Dr. Willson og opnar þann 5. júní 2015.

 

Sýningin er samstarfsverkefni Borgarsögusafns og Dr. Margaret E. Willson mannfræðings við háskólann í Seattle. Undanfarin ár hefur hún safnað heimildum um sjósókn íslenskra kvenna, frá upphafi byggðar til vorra daga. Niðurstöður Dr. Willson kollvarpa þeim hugmyndum sem uppi eru um sjósókn kvenna sem var og er mun almennari en áður var talið. Sýningin byggir á niðurstöðum hennar og stefnt á að hún opni með pomp og prakt á Hátíð hafsins þann 7. júní 2015.

Dr. Willson ólst upp í fiskveiðisamfélagi í Oregon í Bandaríkjunum, sjálf stundaði hún sjómennsku á sínum yngri árum, meðal annars við strendur Ástralíu. Áhugi hennar á sjósókn íslenskra kvenna kviknaði fyrst fyrir um þrettán árum þegar hún dvaldi á Íslandi um nokkurra vikna skeið. Meðan á dvölinni stóð kom hún við á Stokkseyri og skoðaði Þuríðarbúð, hún varð gagntekin af sögu Þuríðar formanns og má segja að þar með hafi vegurinn að frekari rannsókn verið lagður.

Dr. Willson naut góðs af rannsóknum Þórunnar Magnúsdóttur sagnfræðings sem gerði viðamikla könnun á sjósókn íslenskra kvenna fyrir þrjátíu árum síðan. Eftir hana liggja ritin Sjósókn sunnlenskra kvenna frá verstöðvum í Árnessýslu 1697-1980 og Sjókonur á Íslandi 1891-1981. Hún sýndi fram á með tölfræði rannsóknum sem og víðfermri heimildavinnu að mikill fjöldi kvenna stundaði sjóinn, þetta háa hlutfall kom Dr. Willson á óvart því víða í Evrópu var viðvera kvenna á fiskveiði bátum talin boða ólukku. Sú hjátrú náði ekki fótfestu hér á landi, konur voru ekki bundnar við verkun aflans heldur tóku þær og taka virkan þátt í öflun hans. Samt sem áður virðist sú mýta hafa fest rætur í þjóðarsál Íslendinga að konur hreinlega stundi ekki og hafi ekki stundað sjómennsku. Kannski vegna þess að á Íslandi og víðar hefur sjómennska löngum verið beintengd við ímynd karlmennsku.

Við gerð rannsóknarinnar lagðist Dr. Willson yfir sögulegar heimildir um þátttöku kvenna í sjósókn, einnig tók hún viðtöl við meira en sextíu og fimm íslenskar konur sem hafa stundað sjóinn frá miðri síðustu öld. Að auki ræddi hún við fjölda sjómanna og fólk tengt sjósókn og sjávarútvegi. Niðurstöður hennar verða færðar á prent 2015 og mun bókin styðja við sýninguna.

Að sögn Dr. Willson var stéttaskipting milli vinnumanna og kvenna nokkuð skýr og var hlutur kvenna knappari en vinnumanna. Aftur á móti nutu konur sem sóttu sjó sömu kjara og réttar og karlmenn í sömu stöðu. Lagaákvæði um jöfn laun karla og kvenna, trúlega þau fyrstu í íslenskri réttarsögu, birtast í Alþingissamþykkt frá 13. júní 1720 um lausamenn, vinnuhjú og lausgangara. Þar segir: „Ef kona gjörir karlmannsverk með slættir, róðri eða torfristu, þá á að meta verk hennar sem áður segir um karlmann til slíkra launa.“ Þetta ákvæði sýnir að jafnræði kynja var meira til sjós en víða í íslensku samfélagi.

Frásagnir af konum sem sóttu sjó markast ekki síst af hugdirfsku þeirra á sjó, útsjónarsemi og styrk. Sagt er frá konum sem reru til fiskjar í opnum bátum af miklum þrótt þótt þær væru komnar vel yfir sjötugt. Konum sem voru allra aflasæknastar og formenn sem aðeins tóku konur í áhöfn. Finna má frásagnir af konum sem fæddu börn úti á opnu hafi eða í flæðamáli rétt eftir lendingu. Þessi dæmi og fjölmörg fleiri benda til þess að sjósókn hafi verið eðlilegur hluti af lífi margra kvenna. Þ.e.a.s. allt fram til síðari hluta átjándu aldar. Þá má greina hugarfarsbreytingu og heimildir greina frá sjókonum á neikvæðari máta en í fyrri tíð. Til dæmis má nefna lýsingar á Þuríði formanni, í eldri heimildim birtist hún sem fíngerð og fögur kona, úrræðagóð og með bein í nefinu, þegar nálgast aldamótin 1900 taka lýsingar á henni stakkaskipptum. Hún er allt í einu kvenna ófrýnilegust og yfirmáta ókvenleg, svo sannarlega ekki góð fyrirmynd fyrir íslenskar ungmeyjar.

Um 8-15% þeirra sem stunduðu sjóinn frá miðri síðustu öld og allt fram til hrunsins 2008 voru konur. Á níunda áratugnum stunduðu fleiri en þrjú þúsund konur sjóinn. Fjöldi starfa á sjó hefur almennt dregist saman samfara tæknibreytingum, þó stunda fleiri konur sjóinn á Íslandi miðað við önnur iðnvædd ríki. Konur erlendis róa nær eingöngu með eiginmönnum sínum en skipspláss íslenskra kvenna af mun fjölbreyttari toga. Þær róa með öðrum fjölskyldumeðlimum auk þess að ráða sig á skip og báta þar sem engin fjölskyldutengsl eru til staðar.

Dr. Willson bendir á að þrátt fyrir fjölmörg dæmi í fortíð og nútíð um sjómennsku kvenna virðist almenningur í landi líta svo á að konur séu ekki tækar á sjó eða þær sé ekki að finna í þeim geira. Viðmælendur hennar benda jafnan á að til að stunda sjóinn í 20. öld þurftu konur að synda á móti straumnum, eða viðteknum viðhorfum almennings. Þó réttindabarátta kvenna hefði meðal annars falist í því að veita konum fjölbreytt og jöfn tækifæri á vinnumarkaði, þá hafi hvatningin fremur náð til starfa sem kröfðust háskólamenntunar. Heimildir staðfesta reyndar að einmitt vegna kvennabaráttunnar hafi sjósókn kvenna farið ört vaxandi uppúr 1970, konur tóku einnig að sækja sér menntun á þessu sviði í meira mæli. Tækniframfarir í sjávarútvegi eru að sögn þeirra kvenna sem Margaret ræddi við, ein helsta ástæða þess að konum hefur fækkað á sjó. Fjölgun frystitogara á kostnað annarra skipa og þau löngu úthöld sem þeir útheimta gera allt heimilislíf erfiðara. Þessar breytingar hafa valdið því að konur sækja fremur á strandveiðibáta en úthöld á stærri skipum. Eftir hrunið 2008 og fækkun almennra starfa á vinnumarkaði urðu pláss á skipum umsetin. Reyndustu konur áttu í erfiðleikum með að fá pláss, jafnvel sakaðar um að taka störf frá karlmönnum.

Þessari sögu verða gerð skil á frumlegan og aðgengilegan máta, fyrir innlenda og erlenda gesti, unga sem aldna. Leitast verður við að miðla sögunni á fjölbreyttan hátt með aðstoð hljóð- og myndmiðla í bland við texta og ljósmyndir. Sýningin verður þátttökusýning að því leitinu til að leitað verður eftir áliti og hugmyndum kvenna sem í dag stunda sjóinn eða gerðu það á einhverjum tímapunkti, þær fá tækifæri til að segja sögu sem yfirleitt hefur verið sögð af karlmönnum. Hugmyndir eru einnig uppi um að sýningin gæti verið kjörin sem farandsýning að hluta, þar með myndu söfn hérlendis og jafnvel erlendis njóta góðs af þessu verkefni.