Viðburðir framkvæmdanefndar

Þetta eru viðburðir sem framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna mun standa fyrir:

1) Safnaverkefni
Höfuðsöfn landsins, Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn, Listasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands munu setja upp sýningar í samræmi við þau markmið sem afmælinu eru sett.

2) Rit
Rannsóknarrit, helgað 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, mun koma út á árinu 2020, en þá fengu konur kosningarétt til jafns við karlmenn.

3) Hátíðahöld og minningarathafnir
Efnt er til almennrar hátíðar þann 19. júní, á minningardegi kosningaréttar íslenskra kvenna, með hátíðahöldum á Austurvelli.
Mikilvægt er að virkja frumkvæði landsmanna í hátíðahöldum og minningarathöfnum. Til að ýta undir hugmyndir og styrkja frumkvæði er stofnaður sérstakur sjóður opinn umsóknum um fjárstyrki vegna verkefna sem tengjast kosningarétti og kosningaréttarbaráttu kvenna, og vekja ahygli á lýðræði og jafnrétti.

4) Ráðstefna
Ísland hefur frá árinu 2009 verið fremst í röð hvað varðar stöðu kvenna skv. hinum alþjóðlega mælikvarða Alþjóða efnahagsráðsins (World Economic Forum). Íslenskar konur hafa náð langt og hafa mörgu að miðla umheiminum, en líka margt að læra.
Framkvæmdanefndin mun gangast fyrir alþjóðlegri ráðstefnu þar sem fjallað verður um þróun borgaralegra réttinda kvenna. Gerður hefur verið verksamningur við Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands um að halda ráðstefnuna og fer undirbúningur fram í samráði við velferðarráðuneyti, utanríkisráðuneyti, Jafnréttisstofu, Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við HÍ (MARK), Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Reykjavíkurakademíuna og Femínistafélag Íslands, ásamt fleirum sem þekkja vel til málaflokksins.