Umboð nefndarinnar

11. mars 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um hvernig minnast skuli 100 ára afmælis kosningaréttar og kjörgengis íslenskra kvenna 19. júní 2015. Forsætisnefnd var falið að kalla saman til undirbúningsfundar fulltrúa sem flestra samtaka kvenna, svo og stofnana sem fást við jafnréttismál kvenna og karla, til þess að safna saman hugmyndum og gera tillögur um hvernig minnast skuli tímamótanna, auka jafnréttis- og lýðræðisvitund og blása til nýrrar sóknar í jafnréttis- og mannréttindamálum.

Forseti Alþingis boðaði 14. september 2013 til fundar með fulltrúum samtaka íslenskra kvenna og stofnana sem fást við jafnréttismál kynjanna. Fulltrúarnir kusu þá framkvæmdanefnd sem var ætlað að móta endanlegar tillögur til forsætisnefndar Alþingis og annast frekari undirbúning fyrir afmælisárið 2015.