Fyrir konur

Kosningaréttur fyrir konur

Krafan um kosningarétt kvenna til Alþingis var sennilega fyrst orðuð opinberlega árið 1885 á þingmálafundi S-Þingeyinga. Hið íslenska kvenfélag sem stofnað var 1894 tók kosningarétt á stefnuskrána og safnaði 2.348 undirskriftum kvenna um allt land árið 1895 undir áskorun til Alþingis um að samþykkja kosningarétt kvenna. Þegar Kvenréttindafélag Íslands var stofnað 1907 varð krafan um kosningarétt kvenna mjög áberandi og hávær.

Á Alþingi voru kosningaréttur kvenna og kjörgengi oft til umræðu og þar heyrðust raddir sem mæltu gegn þessum rétti. Marga þingmenn óaði við því að auka kosningaréttinn mikið í einu til fólks sem hefði ekki náð jafn miklum þroska og þeir sem kosningarétt höfðu. Einn þingmanna, Jón Jónsson á Hvanná, varaði beinlínis við því að konur fengju kosningarétt allar í einu: „En að sleppa þessum réttindum við þær strax og allt í einu yrði bylting í svip.“

Alþingi samþykkti haustið 1913 og staðfesti 1914 stjórnarskrárbreytingu sem fól í sér að konur og vinnumenn, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt til Alþingis. Aldurstakmarkið átti að minnka um eitt ár á ári þar til 25 ára takmarkinu yrði náð. Þannig fóru lögin til Kristjáns konungs X sem staðfesti þau með undirskrift sinni þann 19. júní 1915. Aldursákvæðið var séríslenskt ákvæði; engin önnur þjóð í heiminum hefur haft viðlíka í kosningalögum.


Upphlutur
Bríet Bjarnhéðinsdóttir

Um hið sérstaka aldursákvæði sagði Bríet Bjarnhéðinsdóttir í Kvennablaðinu 1913:

„Og hvað sem menn segja, þá verður því ekki neitað, að snoppungur er það fyrir konur, að fá það framan í sig með stjórnarskrárlögum samþyktum af Alþingi, að fyrst við 40 ára aldur nái konur þeim þroska, sem 25 ára karlmenn hafi náð.“

 

 

 


Reykvískar konur fögnuðu engu að síður með miklum hátíðahöldum á Austurvelli. Kosið var eftir nýju lögunum árið 1916. Þá bættust í kjósendahópinn 12.050 konur. Höfðu þá um 52 prósent kvenna 25 ára og eldri kosningarétt.