Fyrir karla

Kosningaréttur fyrir karla 1843-1915

Kosningarétturinn 1843 náði aðeins til karlmanna sem áttu jörð að minnsta kosti 10 hundraða dýrleika, eins og það var orðað, ellegar áttu múr- eða timburhús í verslunarplássi, sem metið var til 1000 ríkisdalavirðis hið minnsta. Kjósendur skyldu hafa náð 25 ára aldri. Ekki er vitað hversu margir þeir voru, en talið er að einungis um 2 prósent íbúa landsins hafi haft kosningarétt í fyrstu kosningunum og af þeim neyttu fáir réttar síns, eða einungis um 20 prósent.

Árið 1857 var kosningarréttur rýmkaður mikið og fengu þá flestir fullorðnir karlmenn kosningarrétt sem bjuggu á eigin heimili, borguðu skatta, áttu eignir eða
höfðu lokið háskólaprófi. Þá náði kosningarétturinn til um 10 prósenta landsmanna, og um 42 prósenta karlmanna, 25 ára og eldri.

1903 var kosningaréttur rýmkaður mjög og náði þá til um 65 prósenta karlmanna 25 ára og eldri. Þeir karlmenn, 25 ára og eldri, sem ekki höfðu kosningarétt voru vinnumenn, menn sem gátu ekki greitt 4 kr. í útsvar, menn sem stóðu í skuld vegna sveitarstyrks og ólögráða menn.

Árið 1915 fengu vinnumenn, 40 ára og eldri kosningarétt og afnumin var krafa um útsvarsgreiðslu. Í kosningunum í október 1916 höfðu um 84% karlmanna 25 ára og eldri fengið kosningarétt.